Erfðaréttur
Um erfðarétt er mælt fyrir um í lögum nr. 8/1962.
Erfðaréttur skapast samkvæmt tilteknum tengslum við einstakling (lögerfðir) eða skv. ákvörðun einstaklings skv. erfðaskrá (bréferfðir).
Lögerfingjar eru tilteknir helst sem maki og börn. Maki erfir 1/3 hluta eigna þegar börn eru á lífi, en 2/3 hluta erfa börnin að jöfnu. Ef maka er ekki til að dreifa, taka börn og aðrir niðjan allan arf.
Ef arfleifandi á enga niðja á lífi þá tekur maki allan arf. Ef hins vegar hvorki maka né börnum er til að dreifa þá fellur arfur til foreldra að jöfnu.
Í lögunum er enn fremur mælt fyrir um þá aðstöðu ef einstaklingur á hvorki maka, börn, né foreldra á lífi, sem og frekari aðstæður sem kunna að vera uppi í fjölskyldu einstaklings sem fellur frá.
Erfðaréttur getur einnig orðið til á grundvelli erfðaskrár. Þegar niðjar, þar á meðal kjörniðjar, eða maki taka arf, er arfleifanda óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Þannig getur einstaklingur í slíkri aðstöðu ráðstafað 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Erfðaskrár þurfa að vera í tilteknu horfi til að þær geti mælt fyrir um þann rétt sem vilji arfleifanda stendur til.
Ekki er unnt að gefa tæmandi yfirlit yfir erfðarétt á síðunni þó hér sé fjallað um grunnstefin. Oftast stendur ekki mikill vafi um hverjir það eru sem taka arf.
Hins vegar geta einstaklingar haft áhrif á það hverjir og hvernig erfðamálum verði háttað eftir þeirra dag, og eru ýmsar leiðir í þeim efnum og ýmis réttindi sem unnt er að mæla fyrir um í erfðaskrá eða með öðrum hætti.